Hinton er maðurinn á bak við sumar af þeim mikilvægu hugmyndum sem gerðu gervigreind mögulega.
Hann telur að það séu 10 til 20 prósent líkur á að gervigreind taki fram úr mannkyninu hvað varðar greind og að hún muni ekki láta þar við sitja því hún muni ryðja okkur úr vegi.
Í samtali við CBS líkti hann þróun gervigreindar við að ala tígrisunga upp: „Hann er sætur núna en þegar hann stækkar, þá veistu ekki hvort hann mun drepa þig.“
Með öðrum orðum þá segir hann að þrátt fyrir að gervigreind virðist meinlaus í dag, þá getum við misst stjórn á henni ef við förum ekki mjög varlega.
Hann sagði einnig að margir skilji ekki alvöru málsins, að fólk átti sig ekki á hvað getur gerst í framtíðinni.
Hann sagðist hafa talið að það myndu líða margir áratugir þar til við kæmum á þann stað sem við erum á nú varðandi þróun gervigreindar en þróunin hafi verið miklu hraðari en hann hafi séð fyrir.
Hann sagði að flestir gervigreindarsérfræðingar reikni með að innan 20 ára verði búið að þróa gervigreind sem er greindari en fólk.