Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt að taka yfir lóðina og brunarústir húss að Hvaleyrarbraut og hefja niðurrif. Íbúar hafa lengi kvartað yfir rústum hússins sem brann fyrir næstum tveimur árum síðan.
Sunnudaginn 20. Ágúst árið 2023 kviknaði eldur í stóru húsnæði að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Húsið var byggt á sjötta áratugnum undir starfsemi fyrirtækisins Lýsis og mjöls og skráð sem iðnaðar og skrifstofuhúsnæði. Þegar eldurinn kom upp voru þar hins vegar einnig íbúðir fólks.
Eldurinn barst hratt á milli brunahólfa í húsinu og talið er að brunavarnir hafi ekki verið í lagi. Þegar eldurinn kom upp var fólk sofandi inni í húsinu, meðal annars dóttir konu sem kom æðandi inn til þess að vekja hana. Alls bjuggu 13 manns í húsinu og ekki var talið að um sakamál væri að ræða.
Allt fólk komst lifandi út úr húsinu en talið er að einhver dýr hafi drepist í brunanum en öðrum var bjargað. Til dæmis bjargaði slökkvilið ketti sem var fastur á þakinu. Í marga daga á eftir voru fulltrúar dýrabjörgunarfélagsins Dýrfinnu að störfum við að finna ketti fólks sem bjó í húsinu.
Allar götur síðan hafa rústirnar staðið á sínum stað, innsiglaðar, en til lítillar prýði fyrir svæðið. En húsnæðið stendur fyrir neðan íbúðabyggðina að Skipalóni. Ekki nóg með að rústirnar væru lýti á umhverfinu þá var um tíma af þeim stæk lykt. Hafa Hafnfirðingar furðað sig á því að rústirnar standi þarna enn og sent kvartanir og fyrirspurnir inn til bæjarins.
„Í ágúst eru liðin tvö ár frá brunanum!! Komin tími til að fjarlægja rústirnar!“ segir í umræðum íbúa um málið á dögunum.
„Það er alger skömm af þessu. Það er ekki endalaust hægt að benda á aðra. Efast ekki um að lóðarverð geti staðið undir kostnaði,“ segir annar.
Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar á föstudag, 2. maí, var loks ákveðið að taka lóðina yfir og hefja niðurrif.
„Bæjarráð samþykkir að fylgja málinu eftir í samræmi við 6. gr. Í lóðarleigusamningi um lóðina þar sem gert er ráð fyrir að lóðin falli til bæjarins hafi húsnæðið eyðilagst og ekki verið byggt upp að nýju. Þá skal hreinsun lóðarinnar fara fram hið fyrsta,“ segir í bókuninni.