fbpx
Miðvikudagur 07.maí 2025
Eyjan

Formaður Sjálfstæðisflokksins fór í vikulangt frí daginn áður en eitt stærsta mál þessa þings var tekið til fyrstu umræðu

Eyjan
Mánudaginn 5. maí 2025 21:05

Guðrún Hafsteinsdóttir. Skjáskot RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag og kvöld hefur staðið yfir fundur á Alþingi en eina dagskrárefnið fyrir utan óundirbúnar fyrirspurnir er fyrsta umræða um frumvarp atvinnuvegaráðherra til breytinga á veiðigjaldi en í stuttu máli felast breytingarnar helst í því reiknistofn veiðigjaldsins verður hækkaður. Nokkra athygli hefur vakið að meðal þeirra sem tilkynnt var í upphafi þingfundar um að gætu ekki sinnt þingstörfum á næstunni og hefðu kallað inn varaþingmann í sinn stað var Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins. Flokkur hennar hefur mótmælt frumvarpinu harðlega og lagt mikla áherslu á það sjónarmið sitt að frumvarpið muni valda íslenskum sjávarútvegi miklu tjóni. Ljóst er að um er að ræða eitt stærsta málið á þessu þingi. Ástæða fjarveru Guðrúnar tengist þó störfum hennar ekki á neinn hátt en sonur hennar er að útskrifast úr herskóla í Bandaríkjunum og mun hún verða viðstödd en Guðrún kaus hins vegar að fara í leyfi frá þingstörfum um viku áður en útskriftin fer fram.

Sonur Guðrúnar, Haukur Davíðsson, ræddi ítarlega í viðtali við Vísi, sem birt var um helgina um skólavist sína í herskólanum. Skólinn heitir New Mexico Military Institute og er staðsettur í bænum Roswell í Nýju Mexíkó. Fram kemur í viðtalinu að Haukur hafi verið í tveggja ára háskólanámi í skólanum en í Bandaríkjunum er slík námsleið kölluð „junior college“ en skólinn býður ekki upp á háskólanám í fullri lengd. Haukur hefur nú hins vegar lokið seinna námsárinu og mun samkvæmt viðtalinu fara í hefðbundnari háskóla í Bandaríkjunum næsta vetur.

Fór tæpri viku fyrr

Samkvæmt heimildum Eyjunnar tilkynnti Guðrún skrifstofu Alþingis formlega um leyfið í gær og tilkynnt var um fjarvist hennar á þingfundi í dag en varaþingmaðurinn Ingveldur Anna Sigurðardóttir mun leysa Guðrúnu af í þinginu.

Útskriftin í New Mexico Military Institute fer hins vegar ekki fram fyrr en 10. maí næstkomandi eins og fram kemur á vefsíðu skólans en útskriftir úr bandarískum herskólum fara yfirleitt fram með mikilli viðhöfn.

Hvers vegna formaður Sjálfstæðisflokksins kaus að fara í leyfið 6 dögum áður en umrædd útskrift fer fram og vera þar af leiðandi ekki viðstödd fyrstu umræðu um eitt stærsta þingmál vetrarins, fimm dögum fyrir útskriftina, mál sem flokkurinn sem hún leiðir hefur lagt þunga áherslu á andstöðu sína við, er hins vegar óljóst. Þegar frumvarpið var fyrst kynnt í mars síðastliðnum sagði Guðrún að það legðist illa í sig.

Þegar þessi orð eru rituð hefur umræðan um frumvarpið staðið frá því um klukkan 15:40 en fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa það sem af er tekið til máls.

Ekki sú eina

Því ber að halda til haga að Guðrún er ekki eini þingmaðurinn eða ráðherrann sem er fjarverandi frá þinginu en á þingfundinum í dag var tilkynnt um að Alma Möller heilbrigðisráðherra, Ragna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar, Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokksins og Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra yrðu öll fjarverandi frá störfum í þinginu á næstunni og hefðu varaþingmenn verið kallaðir inn fyrir þau öll.

En staða formanns Sjálfstæðisflokksins gagnvart frumvarpinu um breytingar á veiðigjaldi, sem flokkurinn hefur mótmælt svo harðlega, verður að teljast önnur en hinna fjögurra.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna