fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
Eyjan

Hæðast að stjórnarandstöðunni fyrir „vandræðalegan“ fund – „Hversu lengi ætlar íhaldið að halda þessum skrípaleik áfram?“

Eyjan
Fimmtudaginn 1. maí 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hélt í gær fund vegna máls Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra. Þar sat Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fyrir svörum vegna málsins. Þar ítrekaði Kristrún fyrri svör sín í málinu, að það sé afstaða ráðuneytis hennar að engum trúnaði hafi verið heitið í málinu og að ekki hafi verið óeðlilegt að Ásthildur hafi verið upplýst um að borist hefði ósk um fund frá nafngreindum aðila þar sem á þeim tíma hafi ekkert legið fyrir um hvert tilefnið var eða hversu viðkvæmar upplýsingar stóð til að ræða.

Kristrún neitaði eins og áður að ræða persónulegar ástæður Ásthildar fyrir afsögn sinni eða nákvæmlega hvað var rætt á fundi Ásthildar með formönnum stjórnarflokkanna í aðdraganda afsagnarinnar, enda efni fundarins erfitt og persónulegt. Hún hafnaði því eins að Ásthildi hafi ekki verið sýndur stuðningur.

Eins ítrekaði Kristrún að það sé ekki fortakslaus réttur allra sem óska eftir fundi ráðherra að fá slíkan einkafund. Hún tók eins fram að Persónuvernd sé með málið til skoðunar og því í góðu lagi að leyfa þeirri yfirferð að ljúka – það sé þó mat ráðuneytis hennar að miðlun upplýsinga í málinu hafi verið eðlileg.

Margir hafa nú hæðst að stjórnarandstöðunni fyrir fundinn og framgönguna þar. Hér hafa verið tekin saman nokkur dæmi.

Skrípalegar yfirheyrslur

Illugi Jökulsson rithöfundur segir að það hafi verið vægast sagt vandræðalegt að fylgjast með fundinum.

„Það var vandræðalegt — vægast sagt! — að horfa á skrípalegar „yfirheyrslur“ stjórnarandstöðunnar (og verstur var Klausturdóninn auðvitað) yfir Kristrúnu Frostadóttur um „trúnaðarbrestinn“ sem var enginn trúnaðarbrestur. Ætlar stjórnarandstaðan að leggjast svona lágt? Heldur hún í alvöru að einhver hrífist af þessu?! Það var satt að segja makalaust hvað Kristrún gat haldið þolinmæðinni gagnvart þessu lágkúruþrugli.“

Áður hefur verið fjallað um viðbrögð Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttir, þingmanns Flokks fólksins, sem sagðist verulega ofboðið „og minni á að bak við þetta mál er fjölskylda sem liðið hefur nóg í þessu máli.“

Um hvað er þetta mál og þessi fundur?

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, skrifaði inn á hóp Sósíalistaflokksins: „Daginn eftir afhjúpun Kveiks á þátttöku lögreglunnar í einkanjósnum auðmanna heldur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, yfirheyrslu vegna máls sem er ekki einu sinni hægt að nefna. Er þetta mál fyrrverandi tengdamóður, mál Ástu Lóu eða um hvað er þetta mál og þessi fundur?“

Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins segir að stjórnarandstaðan sé vandræðaleg og það hafi verið sérkennilegt að sitja þennan fund.

„Málið liggur ljóst fyrir, en farið hefur verið að lögum og búið að svara fyrir málið margoft á opinberum vettvangi m.a. í þinginu. Ritara Sjálfstæðisflokksins og formanni nefndarinnar vafðist tunga um tönn þegar hann reyndi að færa rök fyrir því að verja takmörkuðum tíma mikilvægrar nefndar í málið.“

Sigurjón segir að auk þess hafi sumar spurningar frá stjórnarandstöðunni byggt á augljósum misskilningi um tímalínu málsins og hafi andstöðuliðar ítrekað dregið sannsögli forsætisráðherra í efa án þess að færa fyrir því málefnaleg rök.

„Málið var sagt skrýtið og spurt langt út fyrir efni fundarins m.a. um mögulegt lögbrot fyrrverandi ráðherra og togað og teygt um alvarleika málsins. Reynt var að toga skýr orð forsætisráðherra um ámælisverð viðbrögð fyrrverandi menntamálaráðherra yfir á viðkvæma persónulega atburði í lífi Ástu Lóu fyrir mörgum áratugum síðan.

Samantekið þá snýst kjarni málsins um að það liggur ekkert fyrir að trúnaðar hafi verið óskað í fundarbeiðni málshefjanda en þó svo það hefði verið gert þá væri það ekki í samræmi við lög.“

Ómerkilegt er það

Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur og skútuskipstjóri, skrifar: „Að forsætisráðherra – sem hefur í nógu að snúast – skuli vera haldið uppteknum í svona bull yfirheyrslu er enn eitt dæmið um erindisleysu stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Eina erindið er að trufla störf, tefja og skemma fyrir. Ómerkilegt er það. Að slúðurmál fyrrverandi tengdamóður út í bæ endi í þessum farvegi er auðvitað skandall.“

Jónas Yngvi Ásgrímsson varaþingmaður Flokks fólksins skrifar að það helsta í fréttum sé afhjúpun Kveiks, að milljarðamæringar á Íslandi séu að nota lögregluþjóna til að njósna um aðra og að auðmenn séu að kaupa auglýsingar til að hafa áhrif á afgreiðslu á veiðigjaldafrumvarpinu. Engu að síður hafi frétt dagsins í gær verið um fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eyðir löngum tíma í að spyrja forsætisráðherra um hvers vegna ekki var stokkið til í ráðuneytinu og skellt á fundi með einstaklingi úti í bæ sem vildi koma höggi á annan ráðherra. Gaf grænt ljós á að forsætisráðherra byði umræddum ráðherra á fundinn sem samt mátti forsætisráðherra ekki láta umræddan ráðherra vita af fundinum. Af hverju finnst mér þetta skrýtið?“

Ná ekki betur til þjóðarinnar með þessari framgöngu

Ómar Sigurðsson, skipstjóri, skrifar:

„Sjálfstæðisflokkurinn gaf það út eftir kosningar, að hann ætlaði að nota kjörtímabilið til að ná betur til þjóðarinnar.

Öllum landsmönnum er það ljóst að hingað til hefur það tekist herfilega.

Málþóf, talað um plasttappa í fimm tíma, velt sér upp úr máli Ásthildar Lóu sem Áslaug Arna kom af stað, staðið með stórútgerðinni gegn fólkinu í landinu, unnið gegn strandveiðisjómönnum, barist gegn því að eldri borgarar fái vísitöluhækkun á laun eins og aðrar stéttir, tveir þekktir sjálfstæðismenn staðnir að njósnum um almenning og annað eftir því… Reyndar ekki í fyrsta sinn sem Sjálfstæðismenn eru staðnir að njósnum.

Ef þessir fyrrum félagar mínir telja að þetta sé leiðin að hjörtum landsmanna, þá eru tóm fífl í þingflokknum.“

Úlfar Bragason, prófessor emeritus, segir málið rugl. „Ruglið. Hversu lengi ætlar íhaldið að halda þessum skrípaleik áfram með ÓLÖFU – sem kom þetta barnfaðernismál aldrei nokkuð við!“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Flokkssystir Trump – „Við erum öll hrædd“

Flokkssystir Trump – „Við erum öll hrædd“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Ófyrirleitni útgerðarinnar að kalla leiðréttingu veiðigjalda landsbyggðarskatt

Hanna Katrín: Ófyrirleitni útgerðarinnar að kalla leiðréttingu veiðigjalda landsbyggðarskatt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti