fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Pressan

Svona er að smitast af fuglaflensunni – Dánartíðnin mjög há

Pressan
Fimmtudaginn 1. maí 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfirvöld víða um heim hafa áhyggjur af fuglaflensufaraldri sem hefur sótt í sig veðrið á undanförnum misserum. Fuglaflensan, sem er einnig þekkt undir nafninu H5N1, var fyrst staðfest í fuglum í Hong Kong árið 1997 og upp úr aldamótum dreifðist hún víðar, þar á meðal í menn.

Á síðustu misserum hefur borið á veirunni á nýjan og tók flensan sér til dæmis bólfestu í villtum fuglum hér á landi. Í Bandaríkjunum hefur flensan greinst í 50 ríkjum og hafa til dæmis smit verið staðfest í yfir þúsund mjólkurkúm.

Sem betur fer er talið ólíklegt að fuglaflensan smitist á milli manna, þó ekki sé óþekkt að hún hafi smitast í menn. Til dæmis hafa 70 manns smitast í Bandaríkjunum í faraldrinum. Afleiðingar þess að smitast af fuglaflensu geta verið slæmar eins og bent var á í umfjöllun Telegraph ekki alls fyrir löngu.

Í umfjölluninni kom fram að dánartíðni meðal þeirra sem smitast af fuglaflensunni sé hátt í 50%, eða margfalt hærra en dánartíðni af völdum COVID-19.

Lifði veiruna af en bróðir hans ekki jafn heppinn

Í umfjöllun Telegraph skrifaði blaðamaðurinn Mark Honigsbaum um verkefni sem hann fékk árið 2005 þegar bera fór á H5N1 í Víetnam. Hann var sendur til landsins til að fjalla um málið og ræddi hann í umfjölluninni við Nguyen Thanh Hung sem smitaðist af veirunni og veiktist mjög illa þrátt fyrir að vera almennt heilsuhraustur. Á þessum tíma höfðu 29 staðfest smit greinst í mönnum og 20 dauðsföll orðið.

Nguyen þessi, sem var 42 ára á þessum tíma, starfaði sem bílasali og var þar að auki öflugur langhlaupari. Hann veiktist af veirunni eftir að hafa hjúkrað bróður sínum sem lá á milli heims og helju á spítala með veiruna.

Talið er að smitið hafi borist í bróður hans þegar stórfjölskyldan kom saman til að borða súpu, þar sem eitt af aðalhráefnunum var andablóð. Tveimur dögum eftir að hafa borðað súpuna byrjaði bróðir hans að finna fyrir veikindum, þar á meðal miklum höfuðverk og erfiðleikum með að anda.

Óvíst hvernig smitið barst

Ástand bróðurins versnaði hægt og rólega og var hann að lokum færður á gjörgæsludeild þar sem hann fékk meðal annars súrefni. Nguyen reyndi að hjúkra bróður sínum og lýsti hann því í viðtalinu að bróðir hans hafi stöðugt rifið af sér súrefnisgrímuna en hann komið henni aftur á hann jafnóðum. Eftir nokkra daga á sjúkrahúsi lést bróðir hans og ekki leið á löngu þar til Nguyen fór sjálfur að finna fyrir einkennum.

Nguyen var sendur í lungnamyndatöku og sýndu myndirnar svæsna sýkingu í lungum. Hann var lagður inn á sama sjúkrahús og bróðir hans þar sem hann dvaldi í nokkra daga. „Það var eins og höfuðkúpan í mér væri að springa. Mér leið eins og ég væri orðinn litblindur og að veggirnir í herberginu væru að þrýsta á mig.“

„Ég var mjög hræddur til að byrja með en svo fór mér að líða betur. Þegar hitinn lækkaði og verkirnir dvínuðu hugsaði ég með mér að ég væri kominn yfir það versta,“ segir hann en tíu dagar liðu samt áður en hann var útskrifaður.

Óvíst er hvernig hann smitaðist af veirunni, hugsanlega smitaðist hann af bróður sínum, með einhverjum hætti, eða í gegnum súpuna sem borin var fram þó hann segist varla hafa snert hana. Engin bein sönnunargögn eru fyrir hendi um það að veiran berist á milli fólks en vísindamenn hafa þó varað við því að slík stökkbreyting geti átt sér stað sem geri veirunni auðveldara með að dreifa sér.

Sjá svar á Vísindavefnum frá 2022: Geta menn fengið fuglaflensu?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Kínverjar kokhraustir – „Mikið áhyggjuefni“

Kínverjar kokhraustir – „Mikið áhyggjuefni“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Trump fór yfir um þegar blaðamaður reyndi að leiðrétta hann – „Terry, þú mátt ekki gera svona“

Trump fór yfir um þegar blaðamaður reyndi að leiðrétta hann – „Terry, þú mátt ekki gera svona“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamönnum er brugðið yfir nýrri veiru – Stærri en kórónuveiran

Vísindamönnum er brugðið yfir nýrri veiru – Stærri en kórónuveiran
Pressan
Fyrir 2 dögum

Var algjörlega ómeðvitaður um hörmungarnar sem áttu sér stað fyrir neðan hann

Var algjörlega ómeðvitaður um hörmungarnar sem áttu sér stað fyrir neðan hann