Arsenal vann í gær magnaðan endurkomusigur á Bournemouth á heimavelli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni. Mark Reiss Nelson á síðustu sekúndum leiksins kórónaði endurkomu Arsenal sem situr eitt á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot.
Hreint út sagt ótrúlegar vendingar á Emirates leikvanginum í gærkvöldi en Arsenal lenti tveimur mörkum undir áður en að endurkoman hófst.
Mörk frá Thomas Partey, Ben White og svo loks Reiss Nelson sáu til þess að forusta liðsins á toppi ensku úrvalsdeildarinnar hélst í fimm stigum.
Í stúdíói BBC á Englandi fylgdust helstu sparkspekingar stöðvarinnar með gangi mála og þeirra á meðal var fyrrum Arsenal leikmaðurinn og nú dyggur stuðningsmaður félagsins, Ian Wright.
Svo heppilega vildi til að fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Gary Lineker var staddur með honum í höfuðstöðvum BBC og náði að festa á filmu viðbrögð Wright þegar að Nelson kom boltanum í netið og tryggði Arsenal stigin þrjú.
Myndbandið af viðbrögðum Wright, sem hefur vakið athygli víða um heim, má sjá hér fyrir neðan. Sjón er sögu ríkari:
You’ll never guess who scored in the very last seconds. 😂😂 pic.twitter.com/Aw3AjF2dtZ
— Gary Lineker 💙💛 (@GaryLineker) March 4, 2023