Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Ólafur Guðmundsson, reynslumikill landsliðsmaður í handbolta, er á meðal 2 þúsund stuðningsmanna Íslands sem mætir Sviss í 2. umferð riðlakeppni EM í kvöld.
„Það er góð stemning hérna, maður er að gíra sig í leikinn. Við erum í smá undirtölu en það mun heyrast vel í okkur,“ sagði hann við 433.is á Fan Zone í dag, en um 30 þúsund manns verða á uppseldum leikvanginum í heild.
Stelpurnar okkar töpuðu fyrsta leik sínum gegn Finnlandi á miðvikudag og verða í raun að vinna Sviss í kvöld til að eiga möguleika á að komast í 8-liða úrslit.
„Það er góður andi í þessum hóp. Síðasti leikur var ekki sá besti en það er ekki annað hægt en að stíga upp. Við erum með gæði og þurfum bara að fá þau fram,“ sagði Ólafur.
Eiginkona Ólafs er Tinna Mark Antonsdóttir sjúkraþjálfari íslenska liðsins.
„Hún er búin að fylgja liðinu frá upphafi í Serbíu og svo hér. Við náðum aðeins að heilsa upp á hana rétt áðan,“ sagði Ólafur.
Nánar í spilaranum.