Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari segir að staðan sé ósköp einföld fyrir leikinn annað kvöld gegn Sviss, Ísland veðri að vinna.
Ísland tapaði fyrsta leik sínum í riðlinum, eins og Sviss, gegn Finnlandi og gæti hreinlega dottið úr leik með tapi annað kvöld. Jafntefli myndi einnig setja liðið í snúna stöðu upp á að fara upp úr riðlinum.
„Eftir tapið um daginn erum við komin með bakið upp við vegg og þurfum að vinna. Við getum alveg sagt það hreint út,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í Bern, þar sem leikurinn fer fram, í dag.
Ísland og Sviss voru saman í Þjóðadeildinni á leiktíðinni og gerðu jafntefli á Íslandi og ytra, 3-3 og 0-0.
„Það má segja að þetta sé 50/50 miðað við síðustu tvo leiki. Þetta verður hörkuleikur og bæði lið eru í sömu stöðu, eru ekki að fara að spila upp á jafntefli. Þetta er nokkurs konar úrslitaleikur.“