Margir eru hneykslaðir á því að portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo skyldi ekki mæta í jarðaför liðsfélaga síns, Diogo Jota, sem fram fór í portúgalska bænum Gondomar fyrr í dag.
Þúsundir manna fylgdu Jota og bróður hans, Andre Silva, til grafar og lá allt að því áþreifanleg nístandi sorg yfir bænum, eins og DV greindi frá.
Sjá einnig: Nístandi sorg í útför Diogo Jota – Liðsfélagar úr Liverpool og landsliðinu fjölmenntu
Fjölmargir liðsfélagar knattspyrnumannsins heimsþekkta úr Liverpool og portúgalska landsliðinu mættu í jarðaförina. Til að mynda fyrirliði Liverpool, Virgil Van Dijk sem og Bruno Fernandes og Bernardo Silva, sem spila fyrir erkifjendurna í Englandi, Manchester United og Manchester City.
Fjarvera Ronaldo hefur hins vegar vakið mikla athygli. Portúgalski blaðamaðurinn Antonio Ribeiro Cristova vakti athygli á fjarverunni og benti á að hún væri afar einkennileg. „Hann er fyrirliði Portúgals. Diogo var liðsfélagi hans. Kannski eru gildar ástæður sem við vitum ekki um en hann skuldar skýringar. Ábyrgð hans er slík. Hann er fyrirliðinn,“ skrifaði Cristova og tóku fjölmargir undir með honum.
Einhverjir ljáðu máls á því að kannski vildi Ronaldo ekki skyggja á útförina með nærveru sinni.
Annar portúgalskur blaðamaður, Luis Cristovao, tók dýpra í árina og sagði að fjarvera Ronaldo væri einfaldlega „óafsakanleg“.
Ronaldo hefur enn brugðist við og útskýrt fjarveru sína. Hann minntist Jota í hjartnæmri kveðju á samfélagsmiðlum sínum eftir að greint var frá andlátinu og bjuggust því flestir við að hann myndi mæta á hinstu kveðjustundina.
Ronaldo er sagður vera í fríi á snekkju sinni við Mallorca ásamt fjölskyldu sinni en frá því greindi spænskur fjölmiðill.