Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Sandra María Jessen segir að gærdagurinn hafi farið vel með íslenska landsliðið eftir tapið gegn Finnum daginn áður.
„Við leyfðum okkur að vera sárar og svekktar kvöldið eftir leik en daginn eftir vorum við strax farnar að fókusa á Sviss-leikinn. Dagurinn í gær var rosalega góður. Við fórum vel yfir það sem gekk ekki vel og undirstrikuðum þættina sem við ætlum að taka með í næsta leik.
Við fengum peppandi orð frá forsetanum og svo var dagurinn toppaður með því að við fengum að hitta fjölskyldurnar okkar, fengum orku fyrir sálina sem hjálpar manni að undirbúa næsta leik,“ sagði Sandra við 433.is, en Halla Tómasdóttir forseti snæddi morgunverð með liðinu í gær.
Sandra býst við erfiðum leik gegn heimamönnum í Sviss, en íslenska liðið ætlar sér sigur.
„Þetta verður hörkuleikur. Við erum að spila á móti heimalandinu sem þýðir að það verða mikil læti og mikil stemning á vellinum. Við þurfum að vera undirbúnar í það andlega og vita hvað við þurfum að gera til að eiga samskipti okkar á milli og eiga okkar besta leik.
Við erum alveg samstilltar í því sem við þurfum að gera, þekkjum vel á hvor aðra og þurfum að gera það sem við erum góðar í.“