Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona segir afar mikilvægt fyrir leikmenn að hafa þéttan hóp á bak við sig af fjölskyldu og vinum á meðan EM stendur.
Ísland tapaði fyrsta leik sínum á EM 1-0 gegn Finnlandi en bindur vonir við að ná í sigur gegn Sviss á sunnudag.
„Það skiptir öllu máli að finna fyrir þessum stuðningi. Systir mín og kærasti hennar koma núna svo það verður enn stærri hópur núna,“ sagði Sveindís við 433.is í dag.
Eins og flestir vita er kærasti Sveindísar Rob Holding, varnarmaður Crystal Palace og fyrrum leikmaður Arsenal. Hann var á fyrsta leiknum gegn Finnum.
„Hann tekur næsta leik og þarf svo að fara að æfa, hann þarf nú að æfa eitthvað líka,“ sagði Sveindís létt í bragði.
Íslenska liðið fékk frítíma seinni hluta dags í gær til að eyða með fjölskyldum sínum.
„Við fengum góðan frítíma og það var ótrúlega mikilvægt fyrir allar stelpurnar og starfsfólkið, að koma sér aðeins út úr þessu sem gekk á í síðasta leik.“
Sjálf segist Sveindís ekki mikið ræða fótbolta utan vallar og ekki Holding heldur.
„Við ræðum aldrei um fótbolta. Ég tala ekki mikið um fótbolta í frítíma mínum og ekki hann heldur, Við höfum margt annað að tala um.“