Það er mikill áhugi á James McAtee, leikmanni Manchester City, fyrir félagaskiptagluggann í sumar.
Hinn 22 ára gamli McAtee á aðeins ár eftir af samningi sínum við City og er hann ekki í stóru hlutverki. Það er því líklegt að hann verði seldur í sumar.
Þessi sóknarsinnaði miðjumaður, sem einnig getur spilað úti á kanti, sýndi þó rispur með City í vetur gæti án efa verið í stóru hlutverki víða.
Wolves er nú sagt vera að undirbúa 25 milljóna punda tilboð í McAtee. Félagið er að missa Matheus Cunha til Manchester United og leitar að styrkingu framarlega á vellinum.
Fleiri félög á Englandi, Newcastle, West Ham, Nottingham Forest og Leeds til að mynda, hafa þá einnig sýnt Englendingnum áhuga.
Það er þó einnig áhugi utan Englands, en Bayer Leverkusen, Dortmund, RB Leipzig, Bologna og Fiorentina eru sögð fylgjast með gangi mála.
McAtee er uppalinn hjá City en lék með Sheffield United á láni frá 2022 til 2024.