Tottenham er Evrópudeildarmeistari eftir sigur á Manchester United í úrslitaleik í Bilbaó í kvöld.
Það var allt undir hjá báðum liðum í leiknum og ekki aðeins Evrópudeildarbikarinn undir, heldur einnig sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Hvorugt liðið er nálægt því að komast í þá keppni í gegnum ensku úrvalsdeildina, eru í sætunum fyrir ofan fallsvæðið.
Leikurinn var afar gæðalítill og bar þess merki að mikið væri undir. United fékk fleiri færi en það var hins vegar Tottenham sem fann markið á 42. mínútu. Er það skráð á Brennan Johnson en boltinn fór af Luke Shaw og í markið.
United leitaði að jöfnunarmarki í seinni hálfleik og komst nálægt því, sér í lagi þegar Micky van de Ven bjargaði á línu á ögurstundu. Meira var hins vegar ekki skorað og 1-0 sigur Tottenham staðreynd.
Um fyrsta titil liðsins í 17 ár er að ræða og um leið er sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð í höfn.