Sigurður Gísli Bond Snorrason mætti til Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þátt Íþróttavikunnar á 433.is. Besta deild karla var í fyrirrúmi.
Valur olli ákveðnum vonbrigðum á síðustu leiktíð með því að vera langt frá toppbaráttunni, en liðið náði þó Evrópusæti að lokum. Túfa tók við af Arnari Grétarssyni sem var látinn fara á síðustu leiktíð og hafa einhverjir áhyggjur af Valsliðinu, sérstaklega eftir arfaslaka frammistöðu og 3-0 tap gegn KR í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins á dögunum.
„Þeir eru með Gylfa (Þór Sigurðsson), Aron (Jóhannsson) og Hólmar (Örn Eyjólfsson). Ég veit ekki alveg hvað þeir ætla að gera. Ætla þeir að keyra á titilinn eða eru þeir að byggja liðið upp á nýtt. Þeir hafa fengið Arnór Smára inn, eru bara að bjóða í unga leikmenn. Maður veit ekki alveg hvað er planið þarna. Ég geri ráð fyrir að Valur vilja vinna titilinn á hverju ári en er það raunsætt með Breiðablik og Víking þarna?“ sagði Hrafnkell.
„Mér finnst þetta Valslið bara svo illa samsett og lélegt. Það er eitthvað „off“ þarna hjá Val,“ sagði Sigurður en benti þó á að leikmennirnir væru margir hverjir góðir.
„Erum við ekki sammála um það að Túfa er líklegasti maðurinn til að taka pokann sinn fyrstur?“ spurði Helgi og mönnum fannst það engin spurning.
„Langlíklegastur,“ sagði Sigurður. „Mér dettur enginn annar í hug,“ sagði Hrafnkell.
Umræðan í heild er í spilaranum.