
Goðsögnin Ólafur Jóhannesson fór um víðan völl og gerði upp glæstan þjálfaraferil í hlaðvarpinu Chess After Dark. Þar á meðal var rætt um tíma hans sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins.
Ólafur mátti þola mikla gagnrýni í fjölmiðlum í starfi sínu sem landsliðsþjálfari, en hann gegndi stöðunni frá 2007 til 2011. Sagði hann að gagnrýnin hafi oft verið óvægin.
„Já mér fannst það, sérstaklega gagnvart mér. Hún var oft helvíti erfið en kannski erfiðari fyrir mína fjölskyldu en mig,“ sagði Ólafur í þættinum.
„Ég hef rifið kjaft og verið dónalegur við blaðamenn, sagt ýmislegt sem ég hefði ekki átt að segja. En það þótti mjög vinsælt að tala við þá sem ég valdi ekki, sem skiptu engu máli. Þeir voru alltaf með viðtöl við þá, þá sem voru óánægðastir. Og sumir þeirra sögðu ýmislegt.
Ég fékk mikla gagnrýni og það var oft erfitt. Það var oft sagt við mig: „Nú skaltu þegja, passaðu þig á því að þegja.“ Oftast náði ég að halda kúlinu,“ sagði Ólafur enn fremur.