

Leikmannahópurinn fyrir nóvember-verkefni A landsliðs karla verður opinberaður á morgun. Íslenska liðið leikur tvo útileiki, mætir Aserbaísjan í Bakú 13. nóvember og Úkraínu í Varsjá þremur dögum síðar.
Íslenska liðið þarf líklega að vinna báða þessa leiki til að fara áfram í umspil um laust sæti á Heimsmeistaramótið næsta sumar.
Bjarni Helgason blaðamaður Morgunblaðsins ritar um þetta í blað dagsins og gefur kjaftasögumum Arnar Gunnlaugsson, þjálfara liðsins, langt nef.
„Það hefur líklega sjaldan verið jafnmikill hausverkur að velja 23-manna leikmannahóp fyrir komandi verkefni en leiða má að því líkur að fimmtán leikmenn geti verið nokkuð öruggir um sæti sitt í hópnum,“ skrifar Bjarni í Morgunblaðið í dag.
„Tveir markverðir, fimm varnarmenn, sjö miðjumenn og einn framherji. Það verður afar áhugavert að sjá hvaða framherja Arnar tekur með í verkefnið. Andri Lucas Guðjohnsen er líklega sá eini sem er öruggur um sæti í hópnum en Orri Steinn Óskarsson og Sævar Atli Magnússon eru báðir frá vegna meiðsla,“ skrifar Bjarni.
Blaðamaðurinn telur að einn efnilegasti leikmaður Íslands í dag eigi skilið að vera í hópnum. „Viktor Bjarki Daðason er nafn sem Íslendingar eru farnir að kannast við eftir ótrúlega frammistöðu með FC Köbenhavn undanfarnar vikur. Hann á klárlega skilið að vera í hópnum.“
Bjarni ræðir svo kjaftasöguna sem haldið hefur verið á lofti um að Arnar velji frekar leikmenn sem eru hjá Stellar umboðsskrifstofunni þar sem bróðir hans, Bjarki Gunnlaugsson, ræður ríkjum.
„Hann er reyndar hjá Stellar-umboðsskrifstofunni. Líklega munu einhverjir benda á það, verði hann valinn, sem er auðvitað ekkert annað en fásinna. Þjálfari Íslands velur þann hóp sem hann telur vænlegast,“ skrifar Bjarni í Morgunblaðið.