

Spænskir fjölmiðlar gagnrýndu Real Madrid harðlega eftir 1-0 tap liðsins gegn Liverpool á Anfield í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöld.
Þrátt fyrir frábæran leik Thibaut Courtois í markinu þar sem hann varði fjölda dauðafæra þurftu Madrídarmenn að sætta sig við sitt fyrsta tap í riðlakeppninni. Alexis Mac Allister skoraði eina mark leiksins eftir aukaspyrnu frá Dominik Szoboszlai.
Dagblaðið AS fullyrti að leikurinn sýndi að Real Madrid væri „ekki tilbúið“ til að berjast um Meistaradeildartitilinn í ár, og líkti frammistöðunni við erfiðleika liðsins gegn Arsenal á síðasta tímabili og á Heimsmeistaramóti félagsliða. Þar kom fram að þó spilamennskan hafi breyst, skorti enn „ákefð og viðhorf með og án bolta.“
Marca fór enn harðar í sakirnar og skrifaði að bilið milli liðanna væri nú „stærra en áður“. Liðið eigi heimsklassa markvörð og framherja í Courtois og Mbappé, en „milli þeirra vanti persónuleika, ákafa og gæði“ í stórleikjum.
Vinícius Júnior fékk einnig gagnrýni eftir að hafa átt í basli allan leikinn gegn Conor Bradley, sem stjórnaði honum vel á kantinum. Mundo Deportivo sagði Brasilíumanninn „ráðþrota“ og AS kallaði frammistöðu Jude Bellingham „misjafna“, þó hann hafi verið „eini leikmaðurinn sem las leikinn á Anfield rétt.“
Eitt var þó óumdeilt Courtois var „bjargvættur“ Real Madrid.