
Orri Steinn Óskarsson landsliðsfyrirliði verður enn og aftur frá í komandi leikjum Íslands gegn Aserbaísjan og Úkraínu í undankeppni HM. Arnar Gunnlaugsson landsliðsjálfari segir hann í raun ekki hafa verið nálægt því að vera heill fyrir leikina mikilvægu.
„Nei, því miður. Hann var eiginlega lengra frá því en síðast. Það var bakslag viku eftir að síðasta landsleikjaglugga lauk. Ég ætla ekki að vera að fabúlera um hans meiðsli en ég held að við séum að tala um seinni hluta desember til byrjun janúar,“ segir Arnar.
Með hagstæðum úrslitum í áðurnefndum leikjum kemst Ísland í umspil um sæti á HM næsta sumar, sem fram fer í mars á næsta ári.
„Ég held að gulrótin fyrir hann sé að við náum að komast í umspil í mars og að hann verði 100 prósent klár í það,“ segir Arnar enn fremur um Orra.