„Ég er þvílíkt spenntur fyrir þessu verkefni, eiginlega bara jafnmikið og fyrir því fyrra,“ sagði Daníel Tristan Guðjohnsen landsliðsmaður, sem er á leið inn í sitt annað verkefni með íslenska liðinu eftir að hafa komið frábærlega inn sem nýliði í síðasta mánuði.
Ísland mætir Úkraínu á föstudag og Frakklandi á mánudag í undankeppni HM. Um afar mikilvæga leiki er að ræða, sérstaklega sá fyrri þar sem Strákarnir okkar geta komið sér í frábæra stöðu um að ná umspilssæti.
„Þegar maður nær tveimur góðum leikjum bætir það sjálfstraustið og fílinginn í hópnum. Mér finnst allir vera mjög spenntir.
Það er mikið undir og við vitum það. En við ætlum bara að fara á völlinn og vinna þennan leik. Ég held að þetta verði spennandi leikur. Þeir eru sterkir og við líka, erum á góðum stað og vonandi heldur það áfram,“ sagði Daníel.
Hann var aðeins spurður út í rautt spjald sem hann fékk með Malmö gegn Viktoria Plzen í Evrópudeildinni á dögunum. Virtist hann þar gefa andstæðingi sínum olnbogaskot.
„Maður missti kannski hausinn í eina sekúndu og þá gerðist þetta. Ég er bara ungur og mun læra af þessu,“ sagði hann um málið.
Viðtalið í heild er í spilaranum hér ofar.