Þjálfari írska landsliðsins, Heimir Hallgrímsson, segir að Ísrael ætti að verða útilokað frá bæði HM og Evrópukeppnum af hálfu FIFA og UEFA líkt og Rússland var árið 2022 eftir innrásina í Úkraínu.
Heimir, sem tók við landsliði Íra í júlí 2024, lét þessi ummæli falla í samtali við The Irish Times.
„Ég sé ekki muninn á því að útiloka Rússland og að útiloka ekki Ísrael,“ sagði Heimir.
„Ég er ekki að tala fyrir hönd írsku knattspyrnusambandsins, þetta er bara mín skoðun: Ég sé ekki muninn.“
Aðspurður hvort hann hefði átt erfitt með að spila gegn Ísrael ef þau væru í sama riðli svaraði Heimir. „Auðvitað myndum við spila. Ég hefði ekkert vandamál með það.“
„En það sem er að gerast er algjör harmleikur. Ef FIFA og UEFA útiloka eitt ríki fyrir ákveðið brot, þá sé ég ekki muninn þegar annað gerir það sama.“
Heimir hefur áður stýrt landsliðum Íslands og Jamaíku og er nú við stjórnvölinn hjá Írum í undankeppni HM 2026.