Þorkell Máni Pétursson stjórnarmaður í KSÍ skilur vel af hverju Þorsteinn Halldórsson þjálfari kvennalandsliðsins fór í hart við íslenska blaðamenn Í Sviss í gær.
Þorsteinn var reiður og pirraður þegar blaðamenn spurðu hann út í framtíð sína með liðið, mikið er rætt og ritað um það hvort Þorsteinn hætti með liðið eftir vonbrigði á Evrópumótinu.
Þá var Þorsteinn mjög reiður yfir því að blaðamaður Vísis hefði ákveðið að spyrja landsliðskonu út í framtíð þjálfarans. Það var Sindri Sverrisson sem tók viðtal við leikmann liðsins og ræddi framtíð þjálfarans.
Meira:
Þorsteinn öskuillur á blaðamannafundi – „Dónalegt og nautheimskulegt“
„Hann Steini Halldórs er einstaklega skemmtilegur maður. Hann má alveg vera ósáttur við spurninguna og tímasetninguna og alveg skiljanlega. Sindri er hins vegar að búa til fréttir og ég skil líka hans afstöðu enda sér maður að hann tekur þetta ekki nærri sér,“ segir Máni á Facebook síðu sinni,
Mána finnst hins vegar ótækt að einhverjir blaðamenn séu ósáttir með Þorstein og framgöngu hans. „Þetta væl samt í einhverjum blaðamönnum gagnvart Steina er samt algerlega óskiljanlegt. Steini er algert gull fyrir blaðamenn á Íslandi gaurinn talar í fyrirsögnum. Hann býr til fréttir. Hann er án nokkurs vafa langskemmtilegasti viðmælandinn í sögu KSI. Það er hægt að finna svona 10 fréttir þar sem hann hefur látið einhvern gullmola útúr sér. Ef íþróttablaðamenn eða sparkspekingar ætla að fara taka nærri sér þegar það er sett ofan í þá mæli ég með því að þeir finni sér eitthvað annað starf. Það er ekkert pláss fyrir viðkvæmt fólk í blaðamennsku.“