Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Eftir mikla sól og hitabylgju í Sviss, og víðar á meginlandi Evrópu undanfarna daga, skullu á þrumur og eldingar með tilheyrandi roki og rigningu í gær. Íslenska kvennalandsliðið, sem statt er í Sviss vegna Evrópumótsins, fagnaði þessu.
Íslenska liðið hefur leik á EM á morgun, er það mætir Finnlandi í fyrsta leik riðlakeppnirnar. Í riðli Íslands eru einnig Sviss og Noregur. Stelpurnar okkar hófu formlegan undirbúning sinn fyrir EM í Serbíu í síðustu viku og var leikinn æfingaleikur þar. Hitinn fór upp undir 40 gráður og var einnig heitt er liðið kom hingað til Sviss á laugardag.
Það var því kærkomið að fá smá rok, rigningu og aðeins lægra hitastig í gær, eins og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á í viðtali við 433.is.
„Það er ekki loftkæling á hótelinu svo það er gott að fá smá vind og aðeins kaldara veður,“ sagði Karólína og aðrir leikmenn íslenska liðsins tóku í svipaðan streng í viðtölum gærdagsins.
Það er þó spáð töluverðum hita og sól þegar leikurinn á morgun er flautaður á. Það truflar Stelpurnar okkar þó ekki, eins og þær komu inn á í viðtölum í gær.
Dagskrá Íslands á EM
2. júlí gegn Finnum
6. júlí gegn Sviss
10. júlí gegn Noregi