Þorkell Máni Pétursson, umboðsmaður og stjórnarmaður KSÍ, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Íslenska kvennalandsliðið mætir Noregi og Frakklandi í Þjóðadeidinni eftir um tvær vikur. Liðið er á leið á EM í sumar og Máni er bjartsýnn.
„Ég held að við höfum alveg tækifæri til að gera eitthvað á EM núna. Steini (Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari) er búinn að vera að byggja þetta lið upp í talsverðan tíma. Það var auðvitað mikil gagnrýni á hann á sínum tíma þegar hann var að fara í þessa vegferð. En hún hefur skilað sér í því að við erum með frábært lið, líklega besta kvennalandslið sem við höfum haft.
Hann er líka svo ótrúlega skemmtilegur, frábær í viðtölum og menn ættu að fá kennslu hjá honum um hvernig á að tala.“