Bæði Marcus Rashford og Barcelona binda enn vonir við að leikmaðurinn geti flutt sig yfir til Katalóníu í sumar. Þetta segir Fabrizio Romano.
Rashford var sterklega orðaður við Börsunga í janúar, en fór að lokum til Aston Villa á láni frá Manchester United.
Hann var kominn út í kuldann á Old Trafford og hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.
Svo gæti farið að enski sóknarmaðurinn semji endanlega við Villa, þar sem hann hefur staðið sig vel, í sumar en hans heitasta ósk er þó að skrifa undir hjá Barcelona.
Romano segir að Barcelona hafi ekki getað fengið Rashford í janúar vegna fjárhagsreglna, en félaginu tókst ekki að losa Ansu Fati til að búa til pláss fyrir hann.
Barcelona telur að Rashford gæti nýst þeim vel, þar sem hann getur spilað úti á kanti og sem fremsti maður.