„Svekkjandi, þeir eru mjög gott fótbotlalið,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson á Stöð2 Sport eftir tap gegn Tyrkjum á útivelli í kvöld.
Leiknum lauk með 3-1 sigri Tyrklands en íslenska liðið fann ekki alveg sinn takt í kvöld. „Við komum til baka og jöfnum fyrir hálfleikinn, þeir skora frábært mark sem kemur þeim í 2-1. Þeir eru með þetta, við þurfum að reyna að taka sénsa undir lokin og gegn svona liði er það hættulegt.“
Gylfi setur stefnuna á að vinna báða heimaleikina í október í Þjóðadeildinni þegar Tyrkir og Wales mæt. „Þeir eru með frábæra leikmenn tæknilega, núna verðum við að horfa í næsta mánuð þar sem eru tveir heimaleikir og sækja þar sex stig.“
„Fyrstu 2-3 mínúturnar voru ekki það sem við ætluðum okkur hér úti í Tyrklandi, það hefði verið auðvelt að brotna. Við stóðum það af okkur, þetta eru heilt yfir sanngjörn úrslit.“
Gylfi var að mæta aftur í landsliðið í þessu verkefni og er glaður með það. „Yndislegt, ég verð vonandi í betra formi í næsta mánuði ef ég verð þar. Við reynum að byggja ofan á þessum leikjum.“