Nágranni stjörnunnar Ben Chilwell er brjálaður út í leikmanninn og hefur lagt fram kvörtun til bæjarstjórnar.
Frá þessu greina enskir miðlar en Chilwell er enskur landsliðsmaður og spilar með stórliði Chelsea á Englandi.
Maðurinn sem er ekki nafngreindur er alls ekki sáttur með þennan 27 ára gamla bakvörð sem ákvað að byggja bæði körfuboltavöll og eldstæði fyrir utan heimili sitt.
Chilwell þurfti að hækka jörðina við heimili sitt til að koma eldstæðinu fyrir sem veldur þessum ágæta manni áhyggjum.
,,Þessi hækkun þýðir það að á ákveðnum stöðum þá sér hann mjög skýrt inn í okkar garð, okkar eldhús og heimili,“ sagði maðurinn.
,,Við viljum að okkar einkalíf sé virt og mótmælum þessum breytingum,“ bætir maðurinn við sem er einnig ósáttur með körfuboltavöllinn sem ku taka ansi mikið pláss.
Chilwell hefur sjálfur ekki svarað fyrir sig opinberlega en hann er nýlega kominn aftur heim eftir sumarfrí.