Víkingur, sem hefur gert flotta hluti í Sambansdeildinni og er með 7 stig eftir fimm leiki, tapaði 1-2 gegn Djurgarden á Kópavogsvelli í gær. Leikurinn fór fram klukkan 13 vegna birtuskilyrða hér á landi á þessum árstíma.
Ástæða þess að Víkingur spilar leikina ekki á sínum heimavelli í Víkinni er sú að völlur þeirra er ekki löglegur í Evrópukeppni á þessu stigi. Því færði liðið leiki sína á Kópavogsvöll en þar eru ekki flóðljós sem standast kröfur UEFA svo það þarf að spila á daginn.
Þegar Blikar tóku þátt í sömu keppni í fyrra spiluðu þeir á Laugardalsvelli á kvöldin, að einum leik undanskildum, en nú standa yfir endurbætur á þjóðarleikvanginum.
„Íslenska liðið Víkingur þarf að spila alla leiki sína í Sambansdeildinni á daginn þar sem það eru ekki flóðljós á vellinum þeirra. Það hjálpaði þeim ekki í dag þar sem þeir töpuðu 2-1 gegn Djurgarden,“ segir í færslu The Sun og gerir það gott betur með því að láta hláturtjákn (e. emoji) fylgja.
Upplýsingarnar sem blaðið veitir eru þó ekki alveg réttar, en eins og fyrr segir spilar Víkingur ekki á sínum heimavelli og þá eru flóðljós á bæði Kópavogs- og Víkingsvelli þó þau standist ekki kröfur UEFA á þessu stigi Evrópukeppni. Þá virðist The Sun birta gamla mynd af Kópavogsvelli þar sem eru engin flóðljós.