Robin van Persie, fyrrum leikmaður Arsenal, býst ekki við því að geta unnið fyrir félagið í framtíðinni sem þjálfari.
Ástæðan eru félagaskipti Van Persie til Manchester United árið 2012 sem gerðu stuðningsmenn Arsenal bálreiða.
Hollendingurinn var vinsæll á Emirates frá 2004 til 2012 áður en hann tók skrefið og vann svo sinn fyrsta Englandsmeistaratitil á ferlinum með United.
Van Persie vonast til að þjálfa í framtíðinni en segir að hann gæti ekki tekið að sér starf hjá Arsenal vegna stuðningsmanna félagsins.
,,Ég býst ekki við því að vinna hjá Arsenal. Ég held að þær dyr séu lokaðar,“ sagði Van Persie.
,,Það er vegna félagaskipta til Manchester United, það er mín skoðun á málinu. Maður veit aldrei í fótbolta en þannig horfi ég á stöðuna.“
,,Þeir eru enn viðkvæmir fyrir þessu máli en ég er það ekki. Þetta er sérstaklega viðkvæmt fyrir stuðningsmenn Arsenal.“