Stefán Árni Pálsson, íþróttafréttamaður og stjórnandi Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Úrslitaleikur KA og Stjörnunnar í C-liðum 4. flokks karla varð á magnaðan hátt ein af stærstu íþróttafréttum undanfarinna daga. Þar vann KA sigur í vítaspyrnukeppni. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma í þeim og var leikurinn framlengdur, í stað þess að framlengja leikinn um 20 mínútur eins og reglur gera ráð fyrir þá framlengdi dómari leiksins hann um 10 mínútur.
Eftir framlengingu var jafnt og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar átti reglum samkvæmt að taka 5 spyrnur á lið en dómari leiksins lét liðin aðeins taka þrjár spyrnur. Stjarnan kærði framkvæmd leiksins og KSÍ dæmdi að leikurinn hefði ekki verið löglegur og var ákveðið að endurtaka framlengingu leiksins í dag þar sem Stjarnan vann 1-0 sigur. KA þurfti að greiða fyrir ferðakostnað Stjörnunnar.
Stjarnan hefur hlotið mikla gagnrýni vegna málsins þar sem um leik á meðal barna er að ræða. Þetta var að sjálfsögðu tekið fyrir í Íþróttavikunni.
„Þetta er ótrúlega skrýtið mál. Ég skal alveg gefa smá slaka á að hafa ekki verið með tímann á hreinu, en að láta drengina taka þrjár vítaspyrnur finnst mér algjörlega galið,“ sagði Stefán.
Hrafnkell tók þá til máls.
„Ég myndi skilja þetta í 2. flokki en þarna ertu með stráka sem eru að hafa gaman að þessu, að bæta sig, læra að vera í hóp, þetta er forvörn. Þetta er ekki það sem skiptir máli, þetta mun ekki sitja eftir þegar þú ert 20-30 ára.
Báðir þjálfarar samþykkja þetta. Það er til á upptökum. Það er farið til þjálfarana og þeim sagt að þetta séu tvisvar sinnum fimm og þrjú víti. Þeir bara: Ekkert mál, voru bara til í það,“ sagði hann.
„Ég vissi þetta ekki og nú finnst mér þetta mál algjörlega galið,“ sagði Stefán þá að endingu um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar