Liam Manning knattspyrnustjóri Bristol City í næst efstu deild á Englandi er farin í leyfi frá störfum eftir að ungur sonur hans lést.
Theo sonur Manning lést um helgina en Chris Hogg mun stýra liðinu á meðan Manning verður í leyfi.
„Allir hjá félaginu eru í sárum vegna andláts Theo John Manning, við vitum að Bristol City fjölskyldan og allir í fótboltaheiminum senda Manning, eiginkonu hans Fran og syni þeirra Issac samúðarkveðju á þessum erfiðu tímum;“ segir í yfirlýsingu Bristol.
Manning er 39 ára en hann hefur stýrt Bristol City í eitt ár og er með fjögurra ára samning. Manning var áður stjóri MK Dons og Oxford.
Hogg sem stýrir liðinu núna hefur lengi verið aðstoðarmaður Manning en þeir kynntust ungir að árum þegar þeir voru í unglingastarfi Ipswich.