Það er alls ekki hægt að segja að Erik ten Hag sé ekki að reyna að laga hlutina hjá Manchester United að sögn Benni McCarthy.
McCarthy vann með Ten Hag um tíma á Old Trafford en sá siðarnefndi er orðaður við sparkið þessa dagana eftir erfitt gengi á tímabilinu.
McCarthy segir að Ten Hag sé að reyna allt til að koma hlutunum í lag í Manchester og að hann hugsi um fátt annað en þá vinnu sem hann er í þessa stundina.
,,Það er stóra spurningin, spurningin sem allir spyrja sig að. Ef þeir vissu vandamálið þá gætu þeir lagað það,“ sagði McCarthy um vandamálin á Old Trafford.
,,Það er ekkert að hjá félaginu, það vantar bara ákveðið púsl í púsluspilið. Ég held að þeir viti ekki hvað það púsl er, þeir hafa ekki komist að því.“
,,Ég get ímyndað mér hversu erfitt þetta er fyrir Erik því hann er einn duglegasti þjálfari sem ég hef séð. Hann skoðar öll smáatriði og fer að sofa klukkan þrjú eða fjögur um nóttina.“
,,Ég er nokkuð viss um að eiginkona hans sé við það að skilja við hann því svona er hans líf, hann hættir aldrei.“