Bayern Munchen gæti óvænt horft til Englands í leit að arftaka goðsagnarinnar Manuel Neuer.
Frá þessu er greint í dag en Neuer er orðinn 38 ára gamall og fer að styttast í að hanskarnir fari á hilluna.
Alexander Nubel er einnig á mála hjá Bayern en hann er í dag í láni hjá Stuttgart og er þar lykilmaður.
Blaðamaðurinn Florian Plettenberg segir að Bayern sé að horfa til Brighton og skoðar þar Bart Verbruggen.
Verbruggen er aðalmarkvörður og hefur staðið sig vel eftir komu frá Anderlecht á síðasta ári.
Verbruggen er enn aðeins 22 ára gamall en þrátt fyrir það á hann 15 landsleiki að baki fyrir Holland.