Yfirvöld víða um heim eru farin að taka hart á því þegar aðilar eru að nota og selja ólöglega sjónvarpsþjónustu. Um er að ræða eitthvað sem er kallað IPTV.
Þar eru aðilar sem selja aðgang að sjónvarpsstöðvum með ólöglegum hætti.
Í Bretlandi er málið litið mjög alvarlegum augum og hafa yfirvöld þar sett mikið púður í að reyna að uppræta þetta.
Einn af hverjum tíu aðilum í Bretlandi segist nota IPTV þjónustu sem þá er keypt með ólöglegum hætti og sjónvarpsstöðvarnar verða af miklum tekjum.
Í Grikklandi er þetta einnig í gangi og í síðustu viku var karlmaður þar í landi dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að selja aðgang að IPTV þjónustu.
Maðurinn fékk einnig um 2,5 milljón króna í sekt fyrir athæfi sitt en talið er að maðurinn hafi hagnast um fleiri hundruð milljónir á sölunni.