

Bukayo Saka, leikmaður Arsenal, kallar eftir stöðugleika frá dómurum deildarinnar eftir leik við Brighton í gær.
Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en Arsenal spilaði manni færri lengi í seinni hálfleik eftir rauða spjald Declan Rice.
Rice fékk annað gula spjald sitt fyrir að sparka aðeins í boltann er Joel Veltmann undirbjó aukaspyrnu og var dómurinn umdeildur.
Saka bendir á að Joao Pedro hjá Brighton hafi gert svipaðan hlut í fyrri hálfleik en slapp með skrekkinn.
,,Að mínu mati var þetta nokkuð harður dómur. Við viljum stöðugleika,“ sagði Saka í samtali við BBC.
,,Joao Pedro sparkaði boltanum burt í fyrri hálfleik og fékk ekkert fyrir það, Dec rétt svo snerti boltann og var rekinn útaf.“
,,Þetta er eins og það er; ég vil ekki kenna dómaranum um allt saman, við fengum tækifæri til að vinna leikinn.“