
Sádiarabíska félagið Al-Orobah hefur staðfest komu landsliðsmannsins Jóhanns Berg Guðmundssonar til félagsins. Hann gerir eins árs samning.
Jóhann, sem er þaulreyndur landsliðsmaður Íslands, kemur frá Burnley í ensku B-deildinni. Hann yfirgaf félagið í vor en endursamdi til eins árs í sumar og ákvað að taka slaginn með liðinu í B-deildinni eftir fall úr úrvalsdeildinni. Svo kom hins vegar kallið frá Sádí og er Jóhann mættur þangað.
Al-Orobah er nýliði í sádiarabísku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð eftir að hafa hafnað í öðru sæti B-deildarinnar í vor. Liðið hefur verið duglegt á leikmannamarkaðnum undanfarið og fékk til að mynda til sín Jean Michael Seri, fyrrum leikmann Fulham, Nice og fleiri liða, til liðs við sig í gær.
Jóhann hefur á ferlinum leikið með Charlton og AZ Alkmaar í atvinnumennsku, auk Burnley. Nú reynir hann fyrir sér á framandi slóðum.
Al-Orobah hefur einmitt leik í sádiarabísku deildinni í kvöld. Liðið heimsækir þá stórlið Al-Ahli, sem er með menn á borð við Riyad Mahrez, Roberto Firmino, Gabri Veiga og Edouard Mendy innanborðs.
إنذار عاجل شديد الخطورة .. روشن إستعد ⚠️
عاصفـة ثـلجية ايسلنديـة 🇮🇸🥶
قادمـة من التشامبيون تشيب 🌪️❄️Jóhann Berg Gudmundsson pic.twitter.com/tkketiPDEN
— نادي العروبة السعودي (@ALOROBAH_FC) August 23, 2024