
Marcus Rashford er óvænt orðaður við Barcelona í spænska miðlinum GOL.
Hansi Flick, stjóri Börsunga, vill fá vinstri kantmann í sóknarlínu sína. Reyndi hann að fá hinn afar eftirsótta Nico Williams frá Athletic Bilbao en það tókst ekki.
Nú er Barcelona sagt horfa til annarra leikmanna. Kingsley Coman, sem er ekki inni í myndinni hjá Bayern Munchen, er nefndur til sögunnar en Rashford er það einnig.
Rashford átti ekki sitt besta tímabil með Manchester United í fyrra og var ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir EM í sumar.
Hann byrjaði leik United gegn Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn og í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar gegn Fulham en hefur ekki heillað.