Samkvæmt heimildum 433.is er Fylkir að reyna að kaupa Oumar Sowe framherja Leiknis en viðræður félaganna hafa verið í gangi.
Fylkir sem er að berjast fyrir lífi sínu í Bestu deildinni er eitt þeirra liða sem hafa sýnt Sowe áhuga í glugganum.
Félagaskiptaglugginn lokar annað kvöld og því er ekki mikill tími til stefnu. Samningur Sowe við Leikni rennur út eftir tímabilið samkvæmt vef KSÍ.
Sowe hefur skorað tíu mörk í fimmtán leikjum í Lengjudeildinni í sumar en hann skoraði tólf mörk á síðustu leiktíð.
Framherjinn knái sem er fæddur árið 2000 kom fyrst til Íslands fyrir rúmum tveimur árum og samdi þá við Breiðablik áður en hann fór til Leiknis.
Fylkir er í fallsæti Bestu deildarinnar en liðið hefur spilað ágætlega undanfarið og reynir að styrkja lið sitt með því að krækja í Sowe.