„Hann leggst mjög vel í mig. Það er góð stemning í hópnum og við hlökkum til að takast á við þær,“ sagði Hildur við 433.is fyrir æfingu Íslands á Laugardalsvelli í dag.
Sem fyrr segir mætir Ísland Þjóðverjum á föstudag en á þriðjudag heimsækir liðið Pólland. Með sigri í öðrum af þessum leikjum er EM sætið tryggt.
„Það væri algjör draumur að tryggja þetta sæti fyrir framan áhorfendur á Íslandi. Vonandi gengur það eftir,“ sagði Hildur.
Ísland mætti Þýskalandi ytra fyrr í keppninni og tapaði 3-1 þrátt fyrir ágætis leik. Liðið getur tekið eitt og annað úr þeim leik að sögn Hildar.
„Ég met möguleika okkar bara góða. Við förum í þennan leik til að vinna. Við vitum hvað við getum nýtt okkur og hvernig við eigum að verjast á móti þeim. Ég held við eigum alveg góða möguleika.
Það gekk vel fyrstu 30 mínúturnar á móti þeim úti og svo fengum við þrjú auðveld mörk á okkur. Við þurfum bara að halda fókus allan leikinn og þá ættum við að geta komið í veg fyrir að þær setji á okkur.“
Eins og gefur að skilja er þýska liðið ógnarsterkt og margt sem ber að varast.
„Þær eru með mjög sterka og hreyfanlega framlínu. Það er mikilvægt að við höldum okkur þéttum og í fullum fókus allan tímann. Ef maður gleymir sér í eina sekúndu er einhver búinn að taka hlaup inn fyrir,“ sagði Hildur.
Hildur var svo spurð út í framtíð sína í félagsliðaboltanum en hún er samningslaus hjá hollenska liðinu Fortuna Sittard. Hún er í leit að nýju félagi.
„Já, það er eitthvað en nú er ég að einbeita mér að landsliðinu,“ sagði Hildur.
Viðtalið í heild er í spilaranum.