ÍTF framkvæmdi á dögunum skoðanakönnun á meðal leikmanna í Bestu deild karla þar sem spurt var um þátttöku þeirra í veðmálum hvers konar og getraunaleikjum. Könnunin er gerð af sænskri fyrirmynd eins og áður hefur komið fram og er hluti af verkefni sem snýr að fræðslu um veðmálaþátttöku og hagræðingu úrslita.
Helstu niðurstöður könnunarinnar gefa sterklega til kynna að mikill meirihluti leikmanna í Bestu deild karla taki þátt í einhvers konar veðmálum eða getraunaleikjum og meirihluti þeirra veðji á fótboltaleiki í gegnum erlendar veðmálasíður. Það vekur sérstaka athygli að aðeins sáralítill hluti leikmanna segist veðja á íslenska fótboltaleiki og er það auðvitað jákvætt gefi það rétta mynd af raunveruleikanum.
10% leikmanna hafa glímt við andlega vanlíðan vegna veðmála og er það í samræmi við niðurstöður úr könnun sem gerð var á meðal leikmanna í sænsku deildinni, Allsvenskan.
Nálægt helmingur leikmanna hefur fengið einhverja fræðslu um hugsanleg tengsl veðmála og hagræðinu úrslita í fótboltaleikjum og um 40% leikmanna væri tilbúinn til að sækja slíka fræðslu ef hún myndi standa til boða.
Mikill meirihluti leikmanna, eða um 75%, telur að tíðni fjárhættuspila eða veðmála leikmanna sé mikil eða mjög mikil sem er vísbending um að almennt viðhorf leikmanna er að margir séu að stunda veðmál og þá á fótboltaleiki.
Líkt og áður hefur komið fram er könnunin liður í verkefni sem ÍTF hefur ákveðið að framkvæma að sænskri fyrirmynd og er ætlað að fræða leikmenn um tengsl veðmála og hagræðingu úrslita.