Mikael Nikulásson, sérfræðingur Þungavigtarinnar og þjálfari KFA, skilur vel að Óskar Hrafn Þorvaldsson vilji ekki taka að sér þjálfarastarf KR í dag.
Óskar er sterklega orðaður við KR en Gregg Ryder var látinn fara frá íslenska stórveldinu á dögunum og tekur Pálmi Rafn Pálmason við tímabundið.
Óskar er mikill KR-ingur og er nú að starfa á bakvið tjöldin hjá félaginu eftir að hafa þjálfað Haugesund í Noregi um stutta stund.
Fyrir það var Óskar þjálfari Breiðabliks og náði frábærum árangri þar en flestir búast við að hann taki við eftir tímabilið.
Sumir vilja þó að Óskar taki við um leið en Mikael skilur vel að hann vilji bíða þar til tímabilinu er lokið.
,,Það væri náttúrúlega langbest ef Óskar tæki við þessu núna, Óskar er frábær þjálfari en ég skil hann vel að þora því ekki því það er mjög vont að tapa 2-3 leikjum í röð miðað við hvernig er búið að fara með Ryderinn,“ sagði Mikael í Þungavigtinni.
,,Ég skil Óskar vel að hann vilji bíða aðeins, kannski er besta lausnin að fá innanbúðarmenn sem er ekki nein pressa á og unnu Íslandsmeistaratitil með KR sem leikmenn og annað. Þið vitið alveg hvernig það er, það vildu allir reka Arnar Grétarsson þegar þeir töpuðu gegn Stjörnunni, það var í þriðju umferð og eina tapið á Íslandsmeistaramótinu.“