Íslenska kvennalandsliðið heimsótti það austurríska í undankeppni EM í leik sem var að ljúka.
Ísland fékk sín tækifæri til að skora í fyrri hálfleiknum en það voru hins vegar heimakonur sem leiddu 1-0 eftir hann. Sarah Puntigam skoraði markið af vítapunktinum á 26. mínútu.
Íslenska liðið leitaði að jöfnunarmarki og þegar um stundarfjórðungur lifði leiks fékk liðið vítaspyrnu. Það var fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir sem fór á punktinn og skoraði hún af miklu öryggi.
Stelpurnar okkar voru líklegri í lok leiks en meira var ekki skorað og lokatölur í Austurríki 1-1.
Úrslitin þýða að bæði lið eru enn jöfn að stigum, með 4 stig í öðru og þriðja sæti. Þau mætast að nýju á Laugardalsvelli á þriðjudag.
Þýskaland og Pólland eru með Austurríki og Íslandi í riðli. Tvö efstu liðin fara beint á EM en hin tvö í umspil .