Harry Kane mun taka á móti sínum fyrstu verðlaunum sem leikmaður Bayern Munchen í dag fyrir leik gegn Hoffenheim.
Um er að ræða leik í lokaumferð þýsku deildarinnar en Bayern mun heimsækja Hoffenheim.
Kane fær verðlaun frá Kicker en hann fær viðurkenningu fyrir að vera markahæsti leikmaður Bundesligunnar í vetur.
Kane mun ekki spila leikinn vegna meiðsla en hann skoraði 36 mörk fyrir Bayern í deild sem er í raun magnaður árangur.
Þrátt fyrir mörk Kane tókst liðinu ekki að fagna sigri í Bundesligunni en Bayer Leverkusen er meistari þetta árið.
Bayern er einnig úr leik í þýska bikarnum og í Meistaradeildinni og eru þetta fyrstu verðlaun Kane í Þýskalandi eftir komu í sumar.
Það er ljóst að Kane mun enda sem markahæsti leikmaður deildarinnar en hann er með tíu mörkum meira en næsti maður.