Manchester United goðsögnin Rio Ferdinand bauð aðdáendum að spyrja sig spjörunum úr á dögunum og úr urðu áhugaverð svör.
Ferdinand, sem lék einnig með West Ham, Leeds og QPR á ferlinum, var til að mynda spurður út í hvar hann hefði viljað prófa að spila eftir á að hyggja.
„Ég hefði viljað fara í eitthvað af brasilísku liðunum, Sao Paulo, Fluminense, Flamengo eða þess háttar,“ sagði Ferdinand sem útskýrði svar sitt nánar.
„Andrúmsloftið þarna og hæfileikarnir, þetta er klikkun,“ sagði hann enn fremur og bætti við að það væri heillandi að spila í Copa Libertadores, Meistaradeild Suður-Ameríku.