Hjörvar starfaði lengi á Stöð 2 Sport og þá tók hann þátt í að reka streymisveituna Viaplay. Hann þekkir þessi mál því af eigin hendi.
„Ég tók þátt í því að reka Viaplay og þessar streymisveitur eru í erfiðleikum. Ég fór og heimsótti heiðarlegasta mann sem ég hef kynnst á ævinni um daginn. Hann var búinn að setja upp IPTV heima hjá sér með öllum sjónvarpsstöðvum í heiminum,“ sagði Hjörvar.
„Ég get ekki ímyndað mér annað en að Stöð 2 Sport, Síminn, allir séu að tapa ógeðslega miklum peningum á þessu. Ég skil ekki, ef það á ekki að fara að gera neitt í þessum málum, af hverju ætti maður þá að fara á fullu í eitthvað útboð? Ef ég væri með eitthvað fyrirtæki, af hverju ætti ég að setja fjóra milljarða í enska boltann ef allir ætla svo bara að stela honum í gegnum eitthvað sjóræningjadæmi?“
Hjörvar bendir á að fólk hafi ekki nokkrar áhyggjur af því að sýna frá því opinberlega að það horfi á íþróttir með ólöglegum leiðum.
„Fólk birtir myndir á samfélagsmiðla þar sem maður sér erlenda stöð í horninu. Á ekkert að gera í þessum málum eða er bara frábært að geta nálgast þetta ameríska efni? Eins og staðan er núna í enska boltanum ertu þá bara að keppa við Sky, NBC, BeIn og hvað þetta heitir allt saman.“
Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur í þættinum, velti því upp hvort stórar sektir séu lausnin.
„Hvað á að gera í þessu? Finna einhvern einn og gefa honum risasekt? Þá kannski verða hinir smeykir.“
Hjörvar tók til máls á ný.
„Þetta er ekkert annað en þjófnaður. Ímyndið ykkur ef allir myndu fá sér Stöð 2 Sport og Símann í gegnum svoleiðis. Af hverju ætti þá einhver að halda áfram að bjóða í þessa rétti? Fótbolti í dag er drifinn áfram á sjónvarpsréttum. Besta deildin er búin að vera ef enginn býður í sjónvarpsréttinn, ef hann verður bara verðlaus því það eru hvort sem er allir að stela þessu.
Ég held við séum komnir á smá krossgötur núna. Þeir voru að ræða í Ameríku að þjófnaður sé að kosta deildirnar í kringum 40-50 milljarða dollara. Það verður mjög áhugavert að sjá hvort það sé einhver áhugi fyrir að gera eitthvað í þessum málum. Þeir sem standa í þessu hafa alla mína samúð. Ég held að þetta sé rosalegt vandamál sem allir eru að skauta framhjá,“ sagði hann um málið.