Arnari Grétarssyni þjálfara Vals finnst það leiðinlegt að þurfa að lögsækja KA til að fá greiðslur sem hann telur sig eiga inni hjá félaginu. Hann ræddi málið í Chess after Dark.
Undir lok síðasta árs kom það fram að Arnar hefði farið í mál við KA vegna þess að hann taldi félagið skulda sér væna summu. Það tengist árangri KA í Evrópu eftir að Arnar var hættur.
Málið kom fyrir héraðsdóm norðurlands í upphafi árs en ekki er komin nein niðurstaða í málið.
„Ég ætla ekkert að fara djúpt í þetta, mjög leiðinlegt í alla staða. Þetta er klásúla varðandi Evrópubónus, ég vona að við náum sáttum fyrir utan dómssal,“ segir Arnar í þættinum.
Hann segist hugsa vel til KA þar sem hann þjálfaði í tvö og hálft ár en hætti haustið 2022. „Svo hefur það bara sinn gang, ég átti frábæran tíma þarna og bera hlýhug til þeirra. Mér finnst þetta leiðinlegt að þurfa að standa í þessu.“
„Þetta er mín vinna sem þjálfari, þegar menn kvitta undir samninga þá finnst maður að það þurfi að standa við þá.“
Hann vonar að málið klárist sem fyrst og hann mun una hvaða niðurstöðu sem er. „Mér finnst þetta rosalega leiðinlegt, vonandi klárast þetta. Það er verið að sjá um þessi mál, svo kemur niðurstaða og mun una henni.“