Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsfyrirliði veit ekki hvað tekur við hjá sér í félagsliðaboltanum í sumar. Hann er leikmaður Burnley sem er í hörkufallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni.
„Ég er með möguleika á að framlengja um eitt ár. Við verðum að sjá hvað gerist. Ég er svosem lítið að spá í því. Þetta er einn leikur í einu. Þetta er búið að vera erfitt tímabil með Burnley og ekki búið að ganga eins og við bjuggumst við.
En það er verið að taka stig af fullt af liðum þarna þannig við erum enn þá í séns,“ sagði Jóhann léttur í bragði við 433.is.
Þarna er hann að vísa í að sex stig hafa verið dregin af Everton og fjögur af Nottingham Forest, en liðin berjast um að halda sér í deildinni.
„Þetta hefur verið í öðrum deildum en það er skrýtið að þetta sé núna komið í ensku úrvalsdeildina. En þegar lið brjóta reglur þarf að refsa þeim á einhvern hátt og við tökum því fagnandi,“ sagði Jóhann.
Ítarlegt viðtal við Jóhann er í spilaranum.