Emmanuel Petit, fyrrum leikmaður Arsenal, var ekki hrifinn af ummælum Trent Alexander-Arnold, leikmanns Liverpool, sem vöktu mikla athygli á dögunum.
Í aðdraganda leiks Liverpool gegn Manchester City um helgina sagði Trent að titlar Liverpool undanfarin ár hefðu meiri þýðingu fyrir þá og þeirra stuðningsmenn en í tilfelli City í ljósi fjárhagsstöðu félaganna.
Þetta vakti úlfúð og var enska bakverðinum til að mynda svarað fullum hálsi af Erling Braut Haaland, stjörnu City.
Petit var einn af þeim sem var ekki hrifinn af ummælum Trent.
„Er hann að segja að stuðningsmenn Liverpool séu betri eða ástríðufyllri en aðrir? Finnst honum þeir eiga skilið að vinna fleiri titla út af stuðningsmönnum þeirra? Þetta er fáránlegt. Stundum er betra að halda bara kjafti,“ sagði Frakkinn.