Fari svo að Ísland mæti Úkraínu í seinni leik sínum í komandi landsliðsglugga fer sá leikur fram í pólsku borginni Wroclaw.
Strákarnir okkar mæta Ísrael þann 21. mars í undanúrslitum umspils um sæti á EM næsta sumar. Sá leikur er heimaleikur Ísrael en fer fram í Búdapest í Ungverjalandi.
Sigurliðið mætir Úkraínu eða Bosníu sem mætast í hinum undanúrslitaleiknum en tapliðin mætast í vináttulandsleik. Báðir fara fram 26. mars.
Bosnía og Úkraína eiga heimaleikjaréttinn í seinni leikjum gluggans en þar sem Úkraína getur ekki spilað á sínum heimavelli mun heimaleikur þeirra fara fram í Póllandi.
Aga Hareide landsliðsþjálfari mun opinbera landsliðshóp sinn þann 15. mars, sex dögum fyrir leikinn gegn Ísrael.