Fulham kom mörgum á óvart í gær er liðið spilaði við Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Fulham heimsótti United á Old Trafford og hafði betur með tveimur mörkum gegn einu eftir dramatík undir lokin.
Alex Iwobi skoraði sigurmarkið í uppbótartíma stuttu eftir að Harry Maguire hafði jafnað metin fyrir heimamenn.
Marco Silva, stjóri Fulham, segir að betra liðið hafi unnið þennan leik og var afskaplega sáttur með sína menn.
,,Þetta var risastór sigur fyrir okkur, stuðningsmennirnir voru háværir alveg frá fyrstu mínútu,“ sagði Silva.
,,Leikmennirnir áttu þetta skilið og það var augljóst að betra liðið vann. Við vorum liðið sem spilaði betri bolta, sköpuðum fleiri færi og höfðum stjórn á leiknum.“