Ashley Fletcher er nafn sem margir kannast við en hann er fyrrum leikmaður Manchester United, West Ham og Sunderland.
Fletcher er í dag á mála hjá Sheffield Wednesday og fékk að koma inná á 80. mínútu í 0-2 sigri á Millwall í næst efstu deild í gær.
Fletcher var hreint út sagt ömurlegur eftir innkomuna en hann fékk tvö gul spjöld á einni mínútu undir lok leiks og var í kjölfarið sendur af velli með rautt spjald.
Johnny Phillips, lýsandi Sky Sports, var agndofa yfir þessari hegðun Fletcher og talar um eina verstu skiptingu í sögunni.
,,Þetta er mögulega versta skipting sem ég hef séð á minni ævi, Ashley Fletcher,“ sagði Phillips.
,,Hann kom inná og stuttu seinna var hann spjaldaður fyrir að tefja, hann þrumaði boltanum útaf og fékk gult spjald.“
,,Það næsta sem gerðist, hann tapaði boltanum til Ryan Longman og er hann reyndi að vinna hann til baka braut hann klaufalega á sér og fékk verðskuldað annað gult og þar með rautt.“